EN
Fyrirtækið
Kistan
English

Skiptiborð

  5 200 800

Opið alla virka daga

  7:30-17:00

Karfan þín er tóm

Minningarorð - Valur Harðarson

Frétt birt mánudagur, 5. nóvember 2018

Við kveðjum Val Harðarson, náinn samstarfsmann og vin. Fyrir fáum vikum hilltum við Val í Stokkhólmi, þar sem Johan Rönning hf. hélt árshátíð sína. Tilefnið var fjörutíu ára farsælt starfsaldursafmæli.

Það urðu mikil tímamót þegar eigendaskipti urðu í Johan Rönning fyrir réttum fimmtán árum síðan. Valur fór fremstur meðal jafningja í hópi starfsmanna, og ásamt Þurý sinni, bauð hann nýja eigendur velkomna. Honum leist vel á hugmyndir þeirra um framtíð félagsins. Hann tók líka vel á móti ungum stjórnanda sem kom stuttu síðar til liðs við félagið. En Valur var ekki auðseldur; honum var eðlislægt að viðhafa hóflega varfærni við fyrstu kynni.

Það var gaman að heyra í Vali segja frá þekkingaröflun sinni um fræðin um „Lærdómsfyrirtækið“. Af þeim hafði hann hrifist í ársdvöl sinni í Bandaríkjunum nokkrum árum fyrr þar sem hann kynnti sér ýmislegt varðandi þjónustu og fyrirtækjamenningu; auk þess að vinna fyrir félagið í fjarvinnslu. Þessar hugmyndir féllu vel að framtíðarsýn nýrra stjórnenda. Vinnan með þessar hugmyndir voru öðrum þræði grunnurinn að einstaklega skemmtilegu og árangursríku uppbyggingarstarfi þar sem Valur lék eitt lykilhlutverkanna þaðan í frá.

Valur hafði lokið prófi í rafvirkjun nokkru áður en hann hóf störf hjá Johan Rönning árið 1978. Valur var metnaðarfullur keppnismaður og lagði sig ætíð fram um að sækja sér nýja þekkingu hvar sem hana var að fá. Hann var í miklum samskiptum við marga af öflugustu birgjum rafbúnaðar í heiminum og sótti óteljandi fjölda ráðstefna, námskeiða og funda um tæknimál, jafnt sem sölu- og markaðsmál, á sviðinu. Stundum er sagt að fólk geti verið mjög verið mjög vel menntað og með yfirburða þekkingu á sínu sviði, án þess að hafa mikla skólagöngu að baki. Þetta á mjög vel við Val Harðarson.

Sem ástríðufullur sölustjóri vildi Valur vissulega ná árangri frá degi til dags. En Valur sá starf sitt hjá félaginu í stærra samhengi. Hann ræktaði samband sitt við lykilviðskiptavini með einstökum hætti og það átti einnig við um sambandið við fulltrúa erlendra birgja. Vali var mikið í mun að hugsa um hag viðskiptavinanna; og hann var sannfærður um að slík nálgun myndi hámarka árangur fyrirtækisins þegar til lengri tíma væri litið. Valur mun vera okkur fyrirmynd til framtíðar að þessu leyti, eins og í svo mörgu öðru.

Valur var ástríðumaður í hverju því sem hann tók sér fyrir hendur. Hann hafði áhuga á mörgu og sökkti sér í áhugamálin þegar þau knúðu á dyr, hvort sem það var ljósmyndun, mótorhjól og bílar eða veiðimennska.

En mestu ástríðuna hafði hann þó fyrir vinnunni sinni og fyrirtækinu sínu. Starfið var lífið.

Valur mætti á árshátíðina í Stokkhólmi um daginn á sínum forsendum, með sama hætti og hann lifði lífinu; alltaf á sínum forsendum. Valur ætlaði aldrei að tapa baráttunni við krabbann. Valur var aldrei veikur, hann var bara með krabbamein og hann ætlaði að sigrast á því. Ákveðinn og æðrulaus gekk Valur til vinnu sinnar fram á síðasta dag. Aðeins örfáum klukkustundum fyrir andlát sitt sendi hann frá sér sitt síðasta tilboð.

Í Stokkhólmi birtist okkar glæsilegi Valur, leiðtogi síns trausta hóps, og tók á móti verðskuldaðri viðurkenningu sinni. Mörg okkar felldu tár en við vorum glöð og þakklát að hafa Val með okkur.

En nú kveðjum við traustan félaga og vottum Þurý, stelpunum hans og öðrum ættingjum okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Johan Rönning hf.

Bogi Þór Siguroddsson

Haraldur Líndal Pétursson