EN
Fyrirtækið
Kistan
English

Skiptiborð

  5 200 800

Opið alla virka daga

  7:30-17:00

Karfan þín er tóm

Minningarorð - Þórir Lúðvíksson

Frétt birt mánudagur, 16. desember 2019

Með söknuði kveðjum við kæran samstarfsmann.

Þórir Lúðvíksson hóf störf hjá Johan Rönning  í desember 2005. Frá fyrsta degi var Þórir traustur liðsmaður. Hann var einstaklega samviskusamur og vandaður í störfum sínum og þjónustulund var honum í blóð borin. Hvernig sem á stóð var hann alltaf tilbúinn að aðstoða samstarfsmenn og viðskiptavini. Hann bar hag fyrirtækis síns fyrir brjósti og var áhugasamur um hvernig gengi og fagnaði því þegar vel gekk, enda keppnismaður.

Fáir starfsmenn stóðu Þóri að sporði þegar kom að mætingu. Þórir vildi eiga sinn tíma með traustum hópi starfsmanna á kaffistofunni áður en vinna hófst á morgnanna. Hann mætti ekki seinna en 7:30 þó að vinnudagurinn hæfist ekki fyrr en 8:00. Og það þurfti mikið til svo að Þórir hringdi sig inn veikan; hann mætti nema hann hreinlega kæmist ekki fram úr.

Þórir starfaði í þjónustudeild félagsins, lengst af sem bílstjóri. Það er oft mikið álag á bílstjórum Johan Rönning og Þórir taldi ekki eftir sér að vinna langa og erfiða vinnudaga ef aðstæður kölluðu á það. Hann var með áratuga reynslu af sjómennsku og annarri erfiðisvinnu. Hann var vanur að leggja hart að sér og hann brást ekki vinnuveitanda sínum, sama á hverju gekk.

Á starfsferli sínum tók Þórir virkan þátt í uppbyggingu útibúa og þá var ekki spurt um hvert verkefnið væri; heldur hvað þyrfti að gera til að tíma- og verkáætlanir stæðust.

Þórir var glaðlyndur og mikil félagsvera. Íþróttir voru hans stærsta áhugamál og liðin hans Valur hér heima og Liverpool í enska boltanum. Þórir átti nána vini í hópi samstarfsmanna sem nú syrgja góðan vin, þar er skarð fyrir skildi.

Það duldist ekki okkur félögum Þóris að hann var með stórt hjarta og vildi öllum vel. Missir okkar og félagsins er mikill en hugur okkar er hjá fjölskyldu hans; börnum, tengdabörnum og barnabörnum. En allra mestur er missir Önnu, eiginkonu Þóris. Í Þóri átti Anna sinn besta vin og bandamann. Hann hefur staðið með sinni góðu eiginkonu í blíðu og stríðu í erfiðum veikindum undanfarin ár og hún kveður nú kæran eiginmann, bandamann og vin.

Við kveðjum góðan samstarfsmann og vin og vottum Önnu og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Johan Rönning.

Bogi Þór Siguroddsson

Haraldur Líndal Pétursson